Tuesday, September 9, 2008

Sumarið 2008 - Riga, vinna, tjaldferðalag, Snæfell...






Jæja, nú er sumarið bara senn á enda og gott var það þó stutt væri. Alltof langt náttúrlega síðan maður hefur bloggað og þar sem ýmislegt hefur verið að gerast þá verður þetta mjög óýtarlegt blogg um sumarið 2008. Eitt held ég að ég geti sagt með vissu og það er að ég hafi sjaldan hlegið jafn ótrúlega mikið og þetta sumar og fyrir þá sem mig þekkja vita að þá er sko MIKIÐ sagt (:
1. Riga
Júlímánuður var ansi strembinn og skemmtilegur. Fríum var varið fyrir sunnan á æfingum með Bingó leikhópnum. Alveg frábæru fólki og við náðum að gera alveg feykna góða sýningu til að fara með út til Riga 5-10. ágúst á NEATA festival. Sú ferð verður lengi í minnum höfð. Við gistum í klst fjarlægð frá leikhúsinu, þar sem dögunum var varið, en gististaðurinn var munaðarleysingjahæli og skóli. Þaðan var lagt af stað að morgni eða rétt eftir hádegismat og svo keyrt til baka eftir síðustu sýningu um 23 og þá var kvöldmatur og svo var skemmtidagskrá. Þannig að sofið var svo sem ekki mjög mikið í þessari ferð. Enda skammast ég mín fyrir að viðurkenna að ég dottaði á öllum sýningunum nema 3... Þetta var samt rosa skemmtilegt prógramm. 3 sýningar á dag frá leikhópum frá norðurlöndunum og Þýskalandi. Maturinn sem við fengum í mötuneytinu var líka rosalega spennandi og öðruvísi. Sýningarnar voru rosa margbreytilegar sem betur fer, nútímalegar, gamaldags, hástemmdar, skringilegar....osfrv. og það var bara vegna þreytu, ekki leiða sem ég dottaði, og ekki var ég verst (: Það var líka ægilega gaman að kynnast fólkinu sem var þarna. Færeyingarnir stóðu sig best með okkur íslendingunum í að vera hávær og fyrirferðamikil og sýningin þeirra var drullugóð. Bingó sýningin okkar (í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, og verkið eftir hana Hrefnu Friðriksdóttur) var líka mjög vel lukkuð og fékk feykigóða dóma og boð til Mónakó að ári til að sýna á risa leiklistarhátíð þar. Mjög gaman. Ok, ekki nóg um þetta en látum það duga... Ég sakna hópsins líka sárt, enda allt yndislegt fólk ):
2. Sumarið á Hraunum
....hefur verið alveg yndislega yndislegt. Ennþá voru hér einhverjir sem ég kannaðist við þrátt fyrir að ÍSTAK hefði tekið við þessum stífluframhvæmdum hérna á Hraunum af Arnarfelli (eða eiginlega af Hraun hf... eða svoleiðis) og það var rosa gaman að hitta það fólk aftur... Brynjar og Finnur verkstjórar, Gísli sem hótar að taka fólk í gíslingu (?) , Einar Ísgrafa og eftirlitsfastarnir Kári, Siggi, Baldvin, Elís, Sigfinnur... og eiginlega bara maaargir fleiri.. góðir menn og konur sem gera það meðal annars að verki að ég hef hlakkað til að koma hingað aftur síðustu tvö sumur og kvíð fyrir því að koma ekki hingað næsta sumar... því þá verður öllu lokið sennilegast - Grenj og sársauki og tregi! Svo er bara alveg ótrúlegt hvað er til mikið af frábæru og góðu fólki í heiminum sem er gaman að kynnast. Mér finnst vinnuumhverfi gjarnan vera voða góður staður til að kynnast innri manni fólks. Já, nóg um það. Sumir hérna uppfrá hafa verið voða duglegir við að gera alls konar hluti utan vinnu. Við fórum t.d. að kíkja á yfirfallsfossinn við Kárahnjúka, í Laugavalladalinn að baða okkur undir þessum frábæra heita fossi, upp á Laugafell, í berjamó, upp á Hafrafell, út að Káraborg, niður með Kelduá og.... upp á Snæfell núna um daginn... það var nú meiri ferðin! Svo skemmtilega vildi til að um morguninn setti ég göngufötin mín í þvott þannig að upp fór ég í náttbuxum og föðurlandi og svona samsulli. Lentum svo síðasta spölinn í harðfenni og jökulsprungum og bara ferðafélögum mínum sé lof að þau hálf neyddu mig til að taka stafi með. Annars vorum ég og Erla hjá Ístaki bara á tímabili á því að við ættum að hringja pent í björgunarsveitina. Þessa leið fer ég sko ekki aftur. En við fengum alveg brilliant veður alla leiðina upp og niður og útsýnið þaðan er alveg ólýsanlegt! Mæli með þessu, en mæli með leiðinni upp frá Snæfellsskála...
3. Tjaldferðalag
Jonas vinur minn frá Vín kom til Íslands í lok ágúst og hófst þá tjaldferðalag. Mamma og pabbi höfðu verið svo ósköp yndæl að lána mér bílinn þannig að ég rúntaði suður eftir vinnu og við rúntuðum svo saman til Egilsstaða þaðan sem hann hélt áfram norður fyrir. Þetta var hin mesta skemmtun og gaman að tjalda þrátt fyrir að það hafi rignt alveg grátlega mikið á okkur, sérstaklega á næturnar. Ég hef ekki farið í tjaldferðalag í háa herrans tíð og kom mér bara skemmtilega á óvart. Einna best er að elda úti á primus og borða einhversstaðar undir jökli eða svoleiðis, ótrúlega huggulegt (: Við komum við víða á suðurströndinni - Reynisfjörunni umtöluðu (og já það var erfitt að halda Jonasi frá öldunum sem lokka ferðamenn út í sig og soga þá svo burt), Þakgil (gífurlega fallegt! En ég held að það rigni fáránlega mikið þarna), Jökulsárlón auðvitað og svo videre o.s.v.
Svo var ég svo heppin að fá að prófa gæðing frá Egilsstaðabýlinu í sumar á vegum Kára, þetta eru snilldar hross, enda systir hans Herdís að læra tamningar. Viljugir, láta vel að stjórn og með fallegan fótaburð. Mæli með þeim (:
Já! og svo fékk ég að prófa gröfu hjá honum Einari um daginn! Það var ofboðslega gaman, maður var alveg aftur kominn í sandkassa fílínginn!!!
Þetta er svona ágætt update af sumrinu mínu. Myndir fylgja með frá hinu og þessu. Allt í einu og allt í allt óskaplega gott sumar - 5 stjörnu (: