Tuesday, February 24, 2009

Hmmmm...

Í síðasta fluginu mínu á 25 tíma ferðalaginu frá Houston (yes...we have a problem (: ) til Vínar var ég orðin annsi annsi subbuleg; nett sveitt, með fitugt hár, bauga og með poka og allt einhvernveginn í kringum mig í rugli. Allavegana, þegar ég fór uppí síðustu vélina sem átti að flytja mig frá Kaupmannahöfn til Vínar hlammaði ég mér bara beint niður í sætið mitt (1A) með poka og flíkur í fanginu. Þegar enginn settist í sætið við hliðina á mér gerðist mín ánægð með lífið og henti dótinu þangað, náði í bókina sem keypt var á flugvellinum í Köben (44 Scotland Street e. Mcall Smith - mjög góð) og sökti mér í lestur og lakkrísát. Ég var nýbúin að koma mér betur fyrir - með báða fætur uppí sætið sem er erfitt að gera á mjög siðsamlegan hátt í pilsi, en ég reyndi - þegar flugfreyjan kom með kvöldmatinn. Hmmm... þetta var ekki eins og svona venjulegur flugvélabakki á að líta út, ekkert var í dollum. Flugfreyjan hafði líka verið eitthvað óvenju iðin við að spurja hvort mig vanhagaði um eitthvað og hvort ekki mætti bjóða mér drykki. Allavegana þá fór ég nú að líta í kringum mig og fattaði, með nokkurri skelfinu, að ég væri á fyrsta farrími. Hvernig það gerðist er ég ekki alveg viss. Annars minnir mig að mamma eða pabbi hafi minnst á, á einhverjum tímapunkti, að það hefði verið það eina sem var laust þegar miðar voru pantaðir. Alltént þá brá mér alveg nokkuð. Og ég fjarlægði sokkana úr sætinu og byrjaði að reyna að vera dönnuð. Ég stalst meira að segja til að gjóa augunum til mannsins hinu megin við ganginn (miðaldra í jakkafötum með dagblað) til að sjá hvernig hann færi að með kvöldmatarbakkann. Þegar ég var búin að vera að reyna að láta eins og heldri manneskja í smá stund þá rann upp fyrir mér hvað ég væri í raun mikill bjáni. Þó ég sé á fyrsta farrími þarf ég ekki að haga mér öðruvísi en ég myndi gera á almennu farrími. Eða hvað....? ....eða hvað....? Ætlast hitt fólkið sem kaupir miða á fyrsta farrími til að hitt fólkið þar sé dannað? Hmmmm... Jæja, þetta hefði nú allt verið mun skárra ef mér hefði ekki liðið eins og einhverjum sem er búinn að vera í sveittu ferðalagi í rúma 20 tíma, ekki búin að sofa mikið, búin að borða kannski aðeins og mikinn lakkrís og er í fötum sem eru búin að vera ofaní tösku eða í notkun síðastliðnar tvær vikur, fyrir ferðalagið.
Mér fannst þetta allavegana fyndin lífsreynsla - að standa sjálfa mig að því svona alveg beint að reyna að vera eins og "hinir" - að falla í hópinn. Hefðuð þið gert það sama?

5 comments:

AgnesVogler said...

Æ elsku perlan mín, hvað ég sakna þín! Þú ert svo góður kompás á hispursleysi og blátt-áfram-verelsi! Reyndu nú endilega að finna lausa helgi til að hoppa hingað yfir og betrumbæta mig : )

Erla Dóra Vogler said...

Æ sömuleiðis systrahjarta (: Ég veit nú samt ekki alveg hvað þetta með kompásinn og að betrumbæta þig, er, en ég sakna þín ósköp mikið... Allt í einu varð ég eitthvað svo ein.

Unknown said...

Ha, ha... snillingur! Hefði ég verið í þínum sporum hefði ég sko látið alveg eins og heima hjá mér. Til hvers er maður annars að borga stórfé fyrir 1. farrými?? Ég hefði meira að segja snúið flugfreyjunni fram og aftur til að gera mér til geðs og boðið manninum í jakkafötunum upp á bjór og Lúdó-keppni ;o)

Steinrún Ótta said...

ha, ha... og já þetta var ég, Steinrún... en ekki Ísold frænka sem var logguð inn á tölvunni minni ;o)

Erla Dóra Vogler said...

hahah lúdókeppni, hef ekki farið í svoleiðis síðan.... ég held ég hafi einhvern tíman farið í lúdó... ójæja. Já ég hefði átt að nýta mér þetta. Var bara alltof lítil í mér eitthvað (: