Friday, January 30, 2009

Tvær ömmuvísur í viðbót

Tvær vísur í viðbót komu frá Ernu frænku í dag, hvort langamma samdi eða ekki, er ekki vitað en þetta eru yndæl heilræði (:

Ýmsir vilja yfir þér drottna
og aftra þér máls.
Öðrum til bjargar átt þú að vera
andlega frjáls.


Takt'ekki niðrið of nærri þér,
það næsta gömul er saga
að lakasti gróðurinn ekki það er
sem ormarnir helst vilja naga.

Thursday, January 29, 2009

Langamma Helga

Erna frænka sendi þessa vísu á fjölskylduna. Hún fann hana innan um gamalt dót en langamma Helga hafði gefið henni vísuna á fermingardaginn. Mér finnst hún svo óskaplega falleg að ég ætla að stelast til að varpa henni hérna fram.

Þjer um aldur unga fljóð
ekkert valdi pínu.
Yfir þig tjaldi gæfan góð
gullnum faldi sínum.

(:

Thursday, January 15, 2009

Sláðu þau dauð!

Einn strákur sem er í leikstjóranámi við skólann er líka mikill áhugamaður um brúðuleikhús. Síðastliðinn þriðjudag fór ég á verk sem hann samdi og gerði brúðurnar fyrir - Schlag sie tod, eða Sláðu þau dauð. Þetta var alveg fáránlega fyndið! Brúðurnar eru í líkamsstærð og fólkið sem talar fyrir þær og hreyfir þær er oft líka að leika á sviðinu. Plottið er semsagt sagan af því þegar herra Bernie er sendur á elliheimilið "Altíð grænt". Í fyrsta lagi hatar hann grænt og þar fyrir utan er hann ótrúlega bitur bara í alla staði og þolir ekki hitt fólkið á elliheimilinu: konuna sem getur ekki hreyft sig fyrir offitu, herra Demens sem er gamall ríkur íssali og frú Iliu sem er visnuð óperusöngkona (: svo vindur plottið þannig upp á sig að Bernie, sem verður vitni að því þegar yfirlæknirinn drepur herra Demens aura hans vegna (til að þóknast sætu hjúkkunni), nær óperudýfunni á sitt band og þau drepa í sameiningu lækninn og grimmu hjúkrunarkonuna. Óperudýfan auðvitað með því að endurlifa atriðið úr Toscu e. Puccini (sem hún söng einmitt í Bayruth 1933) þar sem Tosca stingur hinn ógeðslega Scarpia með hníf. Ótrúlega smekklegt og fyndið. Asnalegt hvað er langt síðan maður hefur farið í brúðuleikhús, eins og það var nú góður brúðuleikhúshópur á Egilsstöðum þegar ég var lítil.
Þetta er alveg frábær skemmtun og alls ekki bara fyrir krakka - fleiri fullorðins brúðuleikhús, já takk ;)

Saturday, January 10, 2009

My fair Lady

Jáhá, í gærkvöldið gerði ég mér smá dagamun og fór í Volksoper. Ég hugsaði ekki einu sinni útí það þegar ég ákvað að gera eitthvað úr föstudagskvöldinu með Clair (sópran frá Frakklandi) og rak augun í My fair, að hún gæti verið á öðru en ensku... en ég meina, auðvitað, við settum náttúrulega verkið upp heima á íslensku, þannig að það er varla hægt að búast við öðru en að þýskumælandi áhorfendaskari vilji fá sína þýsku og engar refjar (er þetta orð?). Heima á Egils var Elise (Agnes systir!) auðvitað flámælt og linmælt og örugglega vel rík af öðrum hræðilegum málkvillum en hér... hér var auminginn haldin Vínerísku (:
(Víneríska er næstum óþekkjanleg þýska - þýska með dönskum hreim, ósköp slepjulegt, allir sérhljóðarnir eru afbakaðir (a verður o t.d.), flestir samhljóðarnir hverfa eitthvert (hafa sjálfsagt flúið) o.s.frv.
Ója, ég skildi varla eitt einasta orð sem stúlkan sagði. En verkið stendur vel fyrir sínu og tónlistin er æði pæði. Mr Doolittle skaraði reyndar framúr sem langbesti leikarinn. Mér fannst samt merkilegt í þessari uppfærslu að það er rómantík eigilega alveg frá byrjun milli þeirra skötuhjúa... og reyndar fannst mér Higgins stundum jaðra fullmikið við að vera hreinlega perralegur. Almennt finnst mér skemmtilegra að leifa áhorfendum að nota ímyndunaraflið og hafa opinn endi: eru þau bara vinir - er eitthvað meira á milli þeirra??? Allavegana hefði ég sko ekki óskað aumingja Elise að enda upp með þessum Higgins eins og raunin var og verkið endaði á heiftarlegau kossaflensi og keleríi.
Jæja - læra. Erla = löt og heimakær (:

Thursday, January 8, 2009

Örstutt pæling

Vissuð þið að það er til fólk sem, kvöldið fyrir frídag í miðri viku (einn af þessum elskulegu Kaþólsku frídögum), fer EKKI á pöbbinn til að drekka frá sér vit, heldur fer út að skokka... um MIÐNÆTTI! Mér stóð nú ekki á sama þegar ég mætti 4. skokkaranum þegar ég var að labba heim eftir flugið núna á mánudagskvöldið. Sumt fólk sko.... já, heilbrigt líferni er mjög gott og gilt, en öllu má nú ofgera (:
Annað - ég varð fyrir vonbrigðum í ferðinni minni. Við vitum öll að það eru til manneskjur sem eru misyndælar. Mér finnst bara rangt að þessar manneskjur líti út fyrir að vera það líka. Allavegana þá voru tvær konur sem fóru fram fyrir mig í tveim mismunandi röðum í Keflavík og Frankfurt og þær litu báðar út fyrir að vera svoleiðis konur, háværar gellur, með króníska skeifu og mikið málaðar. Það er bara eitthvað rangt við þetta. Ef leiðindalið lítur út fyrir að vera leiðindalið þá er einhvern veginn ekkert réttlæti í heiminum (já ok, það átti ég svosem að vita fyrir)... en verður það þá svona í útliti af að vera leiðinlegt.... eða er útlitið á móti þeim og framkoma annarra gagnvart þeim mótar þau og gerir úr þeim pakk.
Hahahha þetta átti nú ekki að vera svona ömurlegt þetta síðasta. En eftir nágranna mína á Baldursgötunni þá veit ég nú fyrir víst að það er fólk sem er bara virkilega rotið að innan og skemmt og vill ekkert annað en gera öðru fólki lífið leitt. Þetta er sorglegt en það besta sem maður getur gert er að reyna að halda sig utan við vandræði þessa fólks og sem fjærst því (í annarri heimsálfu er ágætis byrjun). Ef einhver getur hjálpað þeim til betri vegar þá er það æðislegt, en ég held að það þurfi professional manneskju í það.
Knús,
Erla (alla jafna mjög opin þegar er að kynnast fólki (: )

Tuesday, January 6, 2009

Árið 2008 - Uppgjör

Góðan daginn! Sæll og svo framvegis, langt er um liðið frá því ég bloggaði síðast og geri ég það nú með hjálp Sálarinnar hans Jóns mín sem systrahjartað fékk í jólagjöf frá elskulegum eiginmanni sínum.
...hvar er draumurinn!...
Ástæða bloggleti minnar liggur ekki í því að ég hafi ekki tíma til að blogga heldur hef ég endurtekið ætlað að blogga í vetur og alltaf komist að því þegar á hólminn er komið að ég hef bara ekkert skemmtilegt fram að færa og ég var farin að hallast að því að ég lifi ótrúlega óspennandi lífi (: En ég held að þetta snúst líka um að vera í rétta gírnum og detta bara ekki alveg út úr þessu því þá er alltaf svo mikið að segja þegar maður snýr aftur að maður hefur ekki einu sinni upphaf til að enda út frá...
...því gamalt verður nýtt í nýju ljósi...
En allavegana eru jólin yndislegu heima á Egilsstöðum núna liðin. Það var alveg frábært að koma heim. Lenti í Keflavík 19. des með hálffullri vél af útlendingum sem alveg skríktu af gleði þegar þeir sáu allan snjóinn. Ég skríkti vissulega líka innan í mér en ákvað að láta það ekkert fara lengra heldur bældi tilfinningar mínar eins og sannur Frónbúi. Snjórinn entist fram yfir jólatrjáartöku í Einarsstaðaskógi en svo var lítið sem ekkert um hann það sem eftir lifði hátíðanna. Annars liðu nú jólin bara svona eins og draumur. Heima var bakað, lítið sem ekkert þrifið af okkur systrum reyndar, skreytt, prónað og kelað við Pípsa. Við Þórunn Gréta settum saman smá prógramm af jólalögum til að flytja á elliheimilunum á Egilsst og Seyðis og enduðum svo á að spila það líka í Skötuveislu Kalla á Borgarfirði - rosa gaman. Ég og Karó kíktum í heimsókn til Dóru og Dóra á Eskifirði. Dóra var alveg fáránlega hress miðað við Agnesi greyið (sem er nú opinberlega tvö - hún og Agnarögn) og ef að hún hefði ekki verið komin með myndarlega kúlu hefði maður ekki tekið eftir að hún væri neitt "ófrísk" (bjánaorð svona yfirleitt). Við stelpurnar hittumst svo og spiluðum saman, það er alveg merkilegt hvað, þó allt breytist, allt sé mikið eins þegar við hittumst hver jól. Farið var á Annan í jólum ball, sem reyndist víst vera alveg brjálað - en það frétti ég ekki fyrr en eftir á. Ég og Karó dönsuðum og tjúttuðum eins og brjálæðingar og fólk sem maður hefur ekki séð í háa herrans tíð fékk koss á sig þegar það dansaði framhjá (:
...svo á morgun er allt liðið hjá....
Í gær flaug ég svo aftur til Vínar. Kvöldið áður var ég í alveg frábæru yfirlæti, fyrst hjá ömmu og afa, og svo í partíi hjá Helenu í Hafnarfirðinum með Þórunni Guðmunds, Önnu Völu og söngnemendum Þórunnar úr Hafnarf. Það var rosa gaman að hitta alla aftur þrátt fyrir að kreppan væri eitt af aðal umtölunarefnunum - enda Rakel útí Danmörku rétt að draga fram lífið í lítilfjörlegum vistarverum og búin að leggja mikið af.... enginn rósadans hjá nemendum um þessar mundir. Svo sá ég í tölvupósti áðan að frændi minn Björn Hákon varð pabbi þessa nótt, eignaðist fínasta dökkhærða son með henni Sigurborgu sinni.
.... og gamla skrímslið lifir...oóoóoó...
En já, bíðum nú við - þessi bloggfærsla átti að verða 2008 uppgjör með Sálarívafi. Ég hef nú svo sem ekkert merkilegt um árið 2008 að segja heldur bara heilmikið. Þetta var besta ár sem ég man eftir í lífi mínu til þessa. Skólinn hefur verið skemmtilegur og ég tel víst að mér hafi fram. Ég hef kynnst ennþá fleira frábæru fólki á þessu ári bæði hérna úti og heima. Sumarið var alveg sér gullmoli útaf fyrir sig - alveg brjálað en unaðslegt. Mamma og pabbi heimsóttu mig tvisvar út, Anna Vala kom, einnig belgíski bróðir minn og slóvenska systir mín, Björk, Agnes og Einar, Finnbogi og Raggi. Allir að kíkja á Vín sem er nú ósköp falleg. Kreppan hefur verið eitthvað svo framarlega í brennideplinum en ég verð bara að segja að þetta hefur verið besta árið mitt fram til þessa hvað sem henni líður. Ég er náttúrulega ekki eins illa stödd og margur annar og má teljast heldur betur heppin. Ef að ég hefði séð pípsann minn meira á þessu ári hefði árið að mínu mati verið fullkomið (:
Gerði ég áramótaheit - nei, í rauninni ekkert svona hátíðlegt en á árinu hafa nokkur orðatiltæki og svona hugsýnir komið inn í lífið og bætast nú við það hvernig ég tel gott að lifa því blessuðu. T.d. Gjörðu hið góða vegna hins góða, án tillits til þess, hvað af því leiðir.
Gleðilegt nýtt ár allir saman!