Tuesday, September 9, 2008

Sumarið 2008 - Riga, vinna, tjaldferðalag, Snæfell...






Jæja, nú er sumarið bara senn á enda og gott var það þó stutt væri. Alltof langt náttúrlega síðan maður hefur bloggað og þar sem ýmislegt hefur verið að gerast þá verður þetta mjög óýtarlegt blogg um sumarið 2008. Eitt held ég að ég geti sagt með vissu og það er að ég hafi sjaldan hlegið jafn ótrúlega mikið og þetta sumar og fyrir þá sem mig þekkja vita að þá er sko MIKIÐ sagt (:
1. Riga
Júlímánuður var ansi strembinn og skemmtilegur. Fríum var varið fyrir sunnan á æfingum með Bingó leikhópnum. Alveg frábæru fólki og við náðum að gera alveg feykna góða sýningu til að fara með út til Riga 5-10. ágúst á NEATA festival. Sú ferð verður lengi í minnum höfð. Við gistum í klst fjarlægð frá leikhúsinu, þar sem dögunum var varið, en gististaðurinn var munaðarleysingjahæli og skóli. Þaðan var lagt af stað að morgni eða rétt eftir hádegismat og svo keyrt til baka eftir síðustu sýningu um 23 og þá var kvöldmatur og svo var skemmtidagskrá. Þannig að sofið var svo sem ekki mjög mikið í þessari ferð. Enda skammast ég mín fyrir að viðurkenna að ég dottaði á öllum sýningunum nema 3... Þetta var samt rosa skemmtilegt prógramm. 3 sýningar á dag frá leikhópum frá norðurlöndunum og Þýskalandi. Maturinn sem við fengum í mötuneytinu var líka rosalega spennandi og öðruvísi. Sýningarnar voru rosa margbreytilegar sem betur fer, nútímalegar, gamaldags, hástemmdar, skringilegar....osfrv. og það var bara vegna þreytu, ekki leiða sem ég dottaði, og ekki var ég verst (: Það var líka ægilega gaman að kynnast fólkinu sem var þarna. Færeyingarnir stóðu sig best með okkur íslendingunum í að vera hávær og fyrirferðamikil og sýningin þeirra var drullugóð. Bingó sýningin okkar (í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, og verkið eftir hana Hrefnu Friðriksdóttur) var líka mjög vel lukkuð og fékk feykigóða dóma og boð til Mónakó að ári til að sýna á risa leiklistarhátíð þar. Mjög gaman. Ok, ekki nóg um þetta en látum það duga... Ég sakna hópsins líka sárt, enda allt yndislegt fólk ):
2. Sumarið á Hraunum
....hefur verið alveg yndislega yndislegt. Ennþá voru hér einhverjir sem ég kannaðist við þrátt fyrir að ÍSTAK hefði tekið við þessum stífluframhvæmdum hérna á Hraunum af Arnarfelli (eða eiginlega af Hraun hf... eða svoleiðis) og það var rosa gaman að hitta það fólk aftur... Brynjar og Finnur verkstjórar, Gísli sem hótar að taka fólk í gíslingu (?) , Einar Ísgrafa og eftirlitsfastarnir Kári, Siggi, Baldvin, Elís, Sigfinnur... og eiginlega bara maaargir fleiri.. góðir menn og konur sem gera það meðal annars að verki að ég hef hlakkað til að koma hingað aftur síðustu tvö sumur og kvíð fyrir því að koma ekki hingað næsta sumar... því þá verður öllu lokið sennilegast - Grenj og sársauki og tregi! Svo er bara alveg ótrúlegt hvað er til mikið af frábæru og góðu fólki í heiminum sem er gaman að kynnast. Mér finnst vinnuumhverfi gjarnan vera voða góður staður til að kynnast innri manni fólks. Já, nóg um það. Sumir hérna uppfrá hafa verið voða duglegir við að gera alls konar hluti utan vinnu. Við fórum t.d. að kíkja á yfirfallsfossinn við Kárahnjúka, í Laugavalladalinn að baða okkur undir þessum frábæra heita fossi, upp á Laugafell, í berjamó, upp á Hafrafell, út að Káraborg, niður með Kelduá og.... upp á Snæfell núna um daginn... það var nú meiri ferðin! Svo skemmtilega vildi til að um morguninn setti ég göngufötin mín í þvott þannig að upp fór ég í náttbuxum og föðurlandi og svona samsulli. Lentum svo síðasta spölinn í harðfenni og jökulsprungum og bara ferðafélögum mínum sé lof að þau hálf neyddu mig til að taka stafi með. Annars vorum ég og Erla hjá Ístaki bara á tímabili á því að við ættum að hringja pent í björgunarsveitina. Þessa leið fer ég sko ekki aftur. En við fengum alveg brilliant veður alla leiðina upp og niður og útsýnið þaðan er alveg ólýsanlegt! Mæli með þessu, en mæli með leiðinni upp frá Snæfellsskála...
3. Tjaldferðalag
Jonas vinur minn frá Vín kom til Íslands í lok ágúst og hófst þá tjaldferðalag. Mamma og pabbi höfðu verið svo ósköp yndæl að lána mér bílinn þannig að ég rúntaði suður eftir vinnu og við rúntuðum svo saman til Egilsstaða þaðan sem hann hélt áfram norður fyrir. Þetta var hin mesta skemmtun og gaman að tjalda þrátt fyrir að það hafi rignt alveg grátlega mikið á okkur, sérstaklega á næturnar. Ég hef ekki farið í tjaldferðalag í háa herrans tíð og kom mér bara skemmtilega á óvart. Einna best er að elda úti á primus og borða einhversstaðar undir jökli eða svoleiðis, ótrúlega huggulegt (: Við komum við víða á suðurströndinni - Reynisfjörunni umtöluðu (og já það var erfitt að halda Jonasi frá öldunum sem lokka ferðamenn út í sig og soga þá svo burt), Þakgil (gífurlega fallegt! En ég held að það rigni fáránlega mikið þarna), Jökulsárlón auðvitað og svo videre o.s.v.
Svo var ég svo heppin að fá að prófa gæðing frá Egilsstaðabýlinu í sumar á vegum Kára, þetta eru snilldar hross, enda systir hans Herdís að læra tamningar. Viljugir, láta vel að stjórn og með fallegan fótaburð. Mæli með þeim (:
Já! og svo fékk ég að prófa gröfu hjá honum Einari um daginn! Það var ofboðslega gaman, maður var alveg aftur kominn í sandkassa fílínginn!!!
Þetta er svona ágætt update af sumrinu mínu. Myndir fylgja með frá hinu og þessu. Allt í einu og allt í allt óskaplega gott sumar - 5 stjörnu (:

Tuesday, July 15, 2008

Ísland, elsku Ísland!!!!!!!!!!!!!!






LOKSINS LOKSINS er maður kominn heim til Íslands! Og uppá fjöll, sem er ekki amalegt (:


Mikið er fallegt hérna á þessu landi okkar. Alveg fáránlega sterk þessi "Hér á ég Heima" tilfinning. Ekki síst nálægt Snæfelli - fallegasta fjalli að mínu mati í algeyminum og þó víðar væri leitað!


Annars er bara búið að vera nóg um að vera síðan heim var komið. Fór beint upp á Eyjabakkana að vinna, svo nokkrum dögum seinna var flogið suður á æfingar á Bingói og svo aftur upp á fjöll í vinnuna á næturvaktir. Aumingja Agnes var veik meðan ég var hjá henni fyrir sunnan en það var fínt að fá að hugsa smá um stóru systur og vera góð við hana. Hitti líka Þórunni söngkennara og Björk í yndælis hádegismat og svo fór ég á sjó með afa og Svenna mömmubróður - algjör draumur í dós! Veiddum voða lítið þannig að afi var ekki rosa sáttur, en veðrið var alveg yndislegt og við Svenni sátum og sóluðum okkur og kjöftuðum (: Æfingar á Bingói gengu líka alveg dandala vel og voða gaman að byrja aftur með þetta og venjast nýjum mótleikurum. Mikið fjör! Það er líka svo fínt að vera á næturvöktum á þessum tíma árs. Þá vaknar maður hress svona um 15:00 og þá getur maður labbað hérna í kring og notið landslagsins (og tekið myndir).

Munið þið þegar þið lærðuð að hjóla? Labbaði í gegnum Hljómskálagarðinn þegar ég var fyrir sunnan og þar var faðir að reyna að kenna dóttur sinni að hjóla. Greyið stelpan var sko ekki að samþykkja að þetta væri mögulegt og vældi alveg af hræðslu. Svona var þetta líka hjá mér þegar Lena frænka var að kenna mér... þetta er eitt af þessum hlutum sem að virðast alveg gjörsamlega ómögulegir þegar maður kann þá ekki! Það er sko alveg ljóst að þetta gangi bara ekki og að maður sé örugglega bara eitthvað öðruvísi en hitt fólkið sem ræður við þetta...... vona að stelpugreyið hafi sigrast á hjólinu.


Mæli með að fólk hlusti á þessa vefslóð - þurfið samt að hafa tengda headphones til að þetta virki (:






Sunday, June 29, 2008

Anna Vala í heimsókn





Anna Vala skvísa var hjá mér núna í nokkra daga hérna í Vín og við vorum alveg ótrúlega skemmtilega menningarlegar og villtar í bland (: Við fórum á Spaðadrottninguna hans Tchaikovskys (ég náði þessum algengustu rússnesku óperuorðum: krassaviza (falleg stúlka), liúbliú (elska) og svo auðvitað tri karti (þrú spil) sem var endurtekið svona 100 sinnum (: ) Mjög fín ópera bara, verst að við vorum svoldið þreyttar í fótunum og vorum í standstæðum. Svo fórum við aðeins í Belvedere garðana að skoða. Lentum reyndar í alveg brálæðis veðri á leiðinni þangað, alltí einu fóru að falla risahögl (meðalstærð svona 3 cm í þvermál) þannig að ég vippaði Önnu Völu í snarræði mínu inn um fyrstu opnu dyragættina sem bauðst..... sem var guðs hús (: Sem betur fer var þar bara enginn og við eyddum þarna góðum 40 mínútum í að skrifa póstkort, taka örvæntingarmyndir af okkur og syngja íslensk lög í röddum þar til stytt var upp. Afskaplega gaman. Svo hlotnuðust okkur miðar á tónleika með Ceciliu Bartoli - það var EKKI leiðinlegt (var verulega hugsað til Steinrúnar). Hún er alveg algjör. Hún á skol ekki í vandræðum með coloraturur og þegar maður heldur að hún komist ekki hraðar þá skýtur hún manni illilega ref fyrir rass. Svo lágum við einn daginn í leti og sóluðum okkur við Alte Doná með vinum mínum, fórum svo reyndar aftur nokkrum kvöldum síðar í þrumuveðri og syntum þar lengi í rigningunni - ótrúlega gaman!!!! Svo borðuðum við auðvitað afskaplega vel og Anna Vala bauð mér og Jónasi (mínum fyrrverandi) út að borða á Indverskum matsölustað í tilefni að afmælinu mínu. Mjög, mjög ljúffengt. Með fylgja myndir frá síðustu dögum, vona að einhver hafi gaman af (:

Friday, June 20, 2008

Gengið og hjólað


Jæja, nú sýndum við nútímaóperuna sem ég var að taka þátt í þann 12. júní. Gekk bara alveg dandala ágætlega og fólk var ánægt með okkur - sem er alltaf gaman (:
Eftir að vera laus undan því stressi öllu saman gat ég aftur farið að lifa svona smá og fór í fjallgöngu með vinkonu minni og hennar vinum á Snjófjall, sem er hæsta fjallið í Nieder Österreich (2057 m minnir mig). Það var bara svaka ferð. Lögðum af stað frá Vín um 7 á sunnudagsmorgni, hófum göngu um hálf 9 og vorum ekki komin aftur í bílinn fyrr en rúmlega 19. Bíllinn stóð í 600 m hæð þannig að við hækkuðum okkur um rúmlega 1400 m. Rosa dugleg og vááaááááá´! hvað það er fallegt í Austurríki, útsýnið var frábært og svo heyrði maður stundum óminn af beljuklukkunum. Rosa rómó. Ég hélt náttúrulega að ég yrði farlama af harðsperum en það kom mér skemmtilega á óvart að þær voru ekki svo slæmar. Hundurinn sem var með í för var hins vegar alveg frá í tvo daga (;
Í gær var ég svo líka geðveikt menningarleg og tók þátt í Critical Mass. Það er semsagt fullt af fólki sem hittist 3. föstudag hvers mánaðar og hjólar í hóp um Vín til að berjast fyrir betri hjólasamgöngum og að fólk noti hjól frekar en bíla. En, 3. föstudaginn í júní er sú undantekning gerð, að margir hjóla naktir eða fatafáir eða í furðulegum búningum. Þetta var alveg óskaplega fyndið og ég skemmti mér alveg konunglega. Ég var hógvær og var á bikinítopp og stuttbuxum en fullt af fólki var á afmælisklæðunum. Mér fannst samt flottastur maðurinn sem var ber í svörtum sokkum, lakkskóm, mörgæsarjakka og með pípuhatt. Annar hafði málað á bakið á sér hlykkjóttann veg sem lá alveg niður í rassaboru og ör sem sýndi að bílar ættu að fara þangað. Það var semsagt mikið hlegið þennan dag (:
Annars er ég alveg að deyja úr spenningi yfir að vera alveg að koma heim, bara rúm vika!!!!

Monday, May 5, 2008

Einskær fegurð



Haha!!! Sumir hafa eflaust verið byrjaðir að halda að ég hefði verið að gantast þegar ég montaði mig af löngum nöglum og fögru naglalakki! Nú er ég búin að safna aftur og setja upp rauða litinn... Svo skemmtilega vildi samt til að þar sem ég sat við eldhúsborðið og var að ljúka við verkið missi ég bölvað lakkið niður á nýju gallabuxurnar mínar. Já, lengi minnist ég þeirra fleygu orða sem stóra systir mælti þegar ég var lítil, og vildi ekki láta mála mig í framan - "Beauty is pain". Mikið rétt....og hún er dýr líka...
Jæja, hin myndin er af fallegasta tré sem ég veit um þessa dagana og stendur fyrir framan skólann.

Sunday, April 27, 2008

Sumar í nánd




Jæja nú er ég aðeins byrjuð að iða í skinninu eftir að komast heim. Byrjuð að dreyma heim á hverri nóttu og finna í líkamanum að ég á að vera þar... EN 2 mánuðir og svo er það heim. Get varla beðið (; En sem betur fer byrja æfingar á óperu í næstu viku sem sýnd verður í júní. Hún er mjög stutt þessi og bara fyrir mezzó og barritón, frá 1992, eftir Gottfried von Einem og heitir Prinzessin Traurichkeit (Prinsessa depurð/dapurleiki). Mjög fyndin lítil ópera og textinn er algjör snilld.
Annars er vikan búin að vera alveg ömurleg þar sem ég er búin að vera veik heima alla vikuna bara með hita og læti. Nú er þetta samt allt að koma og bara astminn vinur minn eftir. Þess vegna fór ég í danstímann í gær og það var geðveikt fjör. Vorum að æfa Ungverskan (sem mynnir mjög á 
spænskan dans) og Polka og valsa. Rosa gaman! Nema hvað, að á leiðinni heim stytti ég mér leið í gegnum lítinn garð hérna rétt hjá húsinu mínu og varð fyrir hálfgerðri dúfnaárás. Ég hlýt að hafa litið út eins og einhver sem gefur þeim reglulega eða eitthvað því allt í einu vara bara skýfall af dúfum. Þær veltust alveg hver um aðra fyrir fótunum á mér og flögruðu allt í kringum mig og tvær settust meira að segja á hausinn á mér. Þetta var óskaplega gaman en ég átti bara því miður ekkert handa vesalingunum, en þær ætluðu samt ekkert að láta það neitt á sig fá og eltu mig í gegnum allan garðinn. Ég þurfti að mjaka mér áfram til að koma fæti niður án þess að stífa á dúfukríli.
Síðasta helgi var alveg æðisleg. Einar mágur var hér á ráðstefnu vikuna þar á undan og svo kom Agnes á föstudagsdkvöldinu
og svið sprelluðum öll saman. Fórum t.d. í stóra tívolísvæðið hérna í Vín og út að borða og svona gaman. Hér eru með myndir af okkur að prófa tækin (:

Sunday, April 6, 2008

Sjálfsskoðun...

Þið kannist sjálfsagt flest við þær stundir þegar maður spáir alvarlega í það hvort maður sé ekki örugglega alveg heill á geði. Áðan átti ég svona skemmtilegt moment þegar ég sat í sporvagninum. Ég hafði ekki tekið neitt með mér til að læra á leiðinni þannig að ég ákvað að fara yfir senu sem ég var að æfa í síðustu viku - svona syngja í huganum og sjá fyrir mér hreyfingarnar. Ég var alveg pottþétt með opin augun en ég var svo óskaplega týnd í  mínum hugarheimi að mér brá þegar, ég veit ekki hve mörgum mínútum seinna, ég tók eftir því að ég væri í 
sporvagni og var alveg nokkur sekbrot að átta mig á hvar ég væri eiginlega.
Svona er maður undarlegur og heilinn alltaf eitthvað að leika á mann, sérstaklega merkilegt að maður geti séð eitthvað í huganum svo skýrt að maður sér ekki lengur út um augun.... umm... hljómar svoldið óhuggulega.
Jæja, annars er skólinn byrjaður aftur eftir yndislegt páskafrí með Agnesi, Einari, Guðjóni Braga, Hörpu og Úlfi í Hamborg (og með Nóa páskaeggjum frá mömms, pabbs og píps) og svo komu Lions-systkini mín (Bert-belgi og Jana-tékki) í nokkra daga síðustu helgi. Mikið fjör og gaman með öllum. Í hamborg horfðum við á alla Næturvaktina og frasarnir eru alveg ótrúlega sterkt stimplaðir fremst í heilann á mér (Já, fínt, já sææææll). Annars er Bert er með eitthvað "thing" fyrir hótelum þannig að á sunnudagsmorguninn bauð hann mér í brönch á Hilton hótelinu niðri miðbæ. Já, nei, ekki að grínast. Ég veit ekki hví en mér leið eins og útsnýttu tissue þegar ég kom þarna inn - passaði sko ekki inn í þetta fínerí. En maturinn var að sjálfsögðu aaaaaafskaplega góður. Alveg nokkur risa hlaðborð og djassundirleikur og þjónar að snúast í kringum mann. Óþarfi að taka það fram að ég borðaði mér til óbóta. Eftir 3ggja tíma át ultum við svo yfir í næsta almenningsgarð og lágum á meltunni (;  Ég ætla aldrei aftur að gera sjálfri mér það að borða svona mikið!
Myndir af rauðum nöglum koma inn á næstunni. Ég var svo gáfuleg að gleyma myndavélinni minni (hemm... og símanum og buxunum mínum) í Hamborg þannig að Einar kemur með hana næstu helgi og í framhaldinu get ég svo afmyndast á alla kanta.

Saturday, March 15, 2008

Voooooooooooor






Ok, ég held að ég geti verið búin að uppgötva uppáhalds árstímann minn í Vín. Það er ekki of heitt ennþá, svona þægilegar 10 gr eða svo, og allt er að springa svo yndislega út. Tré með hvítum, bleikum og gulum blómum, að ég tali nú ekki um páskaliljur, krókusa, túlípana og allt það. Rosa gaman að vera úti... ef maður bara hefði tíma.... Manni tekst alltaf einhvern veginn að koma sér í einhvern helling af verkefnum og skemmtilegheitum. Merkilegt líka hvað það tekur óhugglega langan 
að læra atonal nútímaverk, og því miður er þolinmæði ekki alveg mín sterkasta hlið... Jæja, á mánudasgmorguninn verður haldið í páskafrí til Agnesar og Einars í Hamborg þar sem íslensk páksaegg bíða (:  Namm, namm! Takk mamma og pabbi!
Annað, mæli með að þið ykkar sem ekki eruð búin að sjá Sweeney Todd í bíó geri það. Mjög hressandi og skemmtilegt. Líka gaman að sjá hvað myndin er lík uppsetningu Íslensku Óperunnar. Söngurinn bara svoldið annar en mér finnst bæði koma rosa vel út.
Já! og aðrar rosa merkilegar fréttir! BINGÓ sem Leikfélag Kópavogs og Hugleikur settu upp í sameiningu síðasta vor var valið til að fara á Leiklistarhátíð í Riga í Lettlandi 1.-5. ágúst. Það verður frábært að fá að sýna þetta aftur þar sem leikhúsið okkar var rifið eftir nokkrar sýningar þarna um vorið. En þetta verður semsé alveg frábært og mikið skemmtilegt.
Aðrar "merkilegar" fréttir: Hahahh! Ég er allt í einu komin með svo langar neglur að ég ætla að fjárfesta í rauðu naglalakki (;

Monday, March 3, 2008

Hvítir hrafnar...

.... eru jú, vissulega sjaldséðir, en greinilega ekki alveg ósjáanlegir (:
http://www.faroenature.net/gallery/displayimage.php?pos=-4477
Sýnist á öllu að þetta sé færeysk síða.

Thursday, February 28, 2008

Vá, það er alveg yndislega mannskemmandi að vera í mánaðarfríi svona um miðjan vetur. Þetta er búið að vera alveg fínasta gaman. Fyrst að túrhestast með Ragga og svo komu mamms og pabbs og við fórum til Þriggjalandahorns eins og held að mín ágæta systir hafi orðað það - semsagt hornið af Austurríki sem mætir Slóveníu og Ungverjalandi - þar hjóluðum við alveg eins og við ættum lífið að leysa
upp og niður hóla og hæðir prýddum eplatrjám og vínberjaökrum. Mjög, mjög fallegt, og þar sem það var frost allan tímann sem við vorum þarna þá vorum við alltaf vel dúðuð. Stórir fatavöndlar á hjólum. Ég held að við höfum algjörlega gefið innfæddum eitthvað að tala um meðan við dvöldum þarna. Það var starað á okkur hvar sem við fórum, eins og við værum eitthvað afskaplega undarleg.... eða kannski er bara ekkert dónalegt að glápa á skringlilega útlendinga í þessu landi.. :P
Jæja, svo fórum við m & p til Graz og eyddum þar frábærum tíma. Þetta er alveg æðislega falleg borg og rosa menningarleg. Ég held að mér hafi þótt skemmtilegast (af mörgu góðu) spunaleikrit - 4 fólk sem spunnu áfram og áfram nýjar senur, oft með hjálp áhorfenda. Rosa flott (:
Svo aftur til Vínar og litlu blómanna minna, sem hafði ekki orðið meint af að hafa engan til að hugsa um sig í 8 daga sem betur fer.
Við m & p sáum Hollendinginn fljúgandi eftir Wagner, vissulega er hann þá ekki alveg byrjaður að missa sig í því sem hann seinna kallaði "gesamtkunstwerk" eða heilstætt listaverk, og verkið er þolanlega langt án pásu, en ég verð bara að segja að mér líkaði þetta bara mjög vel. Fór einu sinni með Ragga og svo aftur með þeim og já, ég var bara verulega hrifin (og kannski svoldið hissa hvað ég var hrifin...), kannski verð ég bara að fara að steypa mér í að hlusta á Tristan og Isold og Niflungahringinn og eitthvað. Verð þá samt að redda rassnudditæki svo maður þoli að sitja svona lengi (:
Annað frábært sem við fórum á var Flamenco sýning - GEÐSÝKISLEGA FLOTT! Takturinn! Hreyfingarnar! Glíp! þetta var bara alveg ótrúlega rosalega magnað.
Hengdi upp gler"kristalla" - skorið gler - í svefnherbergisgluggann minn og nú vakna ég á morgnana við regnbogalitaðar diskódoppur - algjört æði og mæli með þessu (:
Allir hressir í Vín (:

Thursday, February 7, 2008

Raggi í heimsókn - Bratislava - Tina

Jæja, það er búið að vera mikið að gera frá því í febrúarbyrjun. Raggi kom 30. jan og síðan þá er við búin að vera alveg rosalega dugleg við að fita pyngjur túristaveiðistaða Vínarborgar. Við erum búin að skoða vetrar- og sumarhallir Habsborgaranna, fjársjóðshirlur þeirra, dýragarðinn þeirra, húsgagnageymsluna þeirra, matarstellin þeirra.....ég er hrædd um að þessi konungsfjölskylda beri stórlega ábyrgð á fækkun fíla og mahogany trjáa í heiminum. Þetta er alveg rosalegt! Maður getur bara tekið inn svo og svo margar gyllingar og ofurskraut á einum degi svo þetta er búið að taka sinn tíma.
Í gær fórum við hins vegar til Bratislava í Slóvakíu með Tinu, rosa sætu dönsku vinkonu minni. Maður er bara klst að fara þangað og það kostar bara 14 Eu fram og til baka þannig að okkur fannst þetta geðveikt góð hugmynd.
Jæja, það var allavegna mikið ævintýri. Einkennisorð dagsins og Bratislava er "SKRÍTIÐ" eða furðulegt eða undarlegt eða eitthvað svoleiðis. Við byrjuðum á því að reyna að finna nýja óperuhúsið þeirra því um kvöldið átti að sýna Turandot (Puccini - að mestu) og við vildum tryggja okkur miða. Óperuhúsið er sem er statt á miðju vinnusvæði, húsið við hliðina á því var að hruni komið, og það ber ekkert á því og það er ekki merkt eða skilti eða neitt sem benda á það, þannig að við vorum smá stund að finna það, leit út alveg eins og skrifstofuhúsnæði. Ok svo þræddum við okkur í gegnum miðbæinn sem er rosa lítill en mjög skemmtilegur og með 
fullt af fallegum gömlum húsum og reyndar sumum sem þarf að fara að lappa upp á. Mjög skreytt og spes. Svo var komið að því að koma okkur upp í kastalann (Hron á slóvensku) og löbbuðum upp og upp og upp og villtumst smá. Þessi kastali var meira virki en kastali, ekki svona höll. semsagt svona húsakassi með opi í miðjunni. Allt leit rosa vel utan frá, kastalinn gamall og svona en samt í góðu ástandi, samt bar svoldið á svona öðrum byggingareinkennum - auka glugga eða hálfmáðu dóti eða hliðum sem opnast ekki lengur út á vegi heldur fram af vegg. Jæja, inni í miðjunni fór allt að verða mjög skrítið, leit næstum út eins og skrifstofuhúsnæði þar, risastórir glergluggar með nýtískuljósum blöstu við, og emm...ekkert fólk. Við vorum rosa eitthvað ein. Svo fundum við loksins eitthvað sem virtist vera inngangur. Þar sat sofandi mjög spes kona (hvað get ég sagt, mikið máluð, í sérstökum fötum með langar neglur slípaðar í klær) hún rumskaði þegar við komum inn. Ég spurði hvort við gætum keypt miða hjá henni. Þá byrjaði eitthvað að gerast við munninn á konunni og hún reyndi að stama því út milli niðurkæfðra hlátursgusa að við þyrftum að kaupa miða annarsstaðar. Hún var samt ekkert rosa sleip í þýsku og svo hló hún svo mikið að hún átti erfitt með að gera sig skiljanlega. Á endanum vorum ég og Tina komnar í illilegt hláturskast með henni og Raggi (sem varð alltaf vandræðalegri og vandræðalegri eftir því sem flissið jóxt) flúinn út úr húsinu. Engin skilti voru til staðar sem sögðu nokkuð um hvar ætti að kaupa miða en við fundum það loksins og fórum að skoða safnið. Dót frá steinöld og eitthvað. Virðist vera eins og það sé búið að vera mikið að gerast á þessu svæði alveg síðan þá og sumsstaðar má sjá eitthvað frá mismundandi tímum því fólk hefur kannski ekki viljað eiðileggja þetta gamla heldur bara brætt það saman við eitthvað annað og þannig hefur þetta gengið svoldið lengi lengi. Jæja, safnið var fínt en á slóvensku og mikið að dótinu var ekkert merkt - ekki einu sinni á slóvensku. Eftir þetta ætluðum við að skoða garðinn sem átti að hafa bæst við á barrokk tímanum og teikningar af honum á safninu voru mjög skrautlegar. Þar var auðvitað bara grænt tún (sjá mynd af Tinu að óskapast). Frá kastalaveggnum var útsýnið mjög misgott. Gamli bærinn blasti við í samblandi af niðurnýslu og fegurð en hinu megin við Dóná (Dúnaj) er blokkaskógur, ekki grænn blettur í sjónmáli og yfirleitt mín hugmynd að helvíti á jörð. Jæja, svo löbbuðum við meira um og skoðuðum niðrí bænum og allt var nokkuð eðlilegt þangað til við fórum að fá okkur kvöldmat. Staðurinn var ítalskur, eða með ítalskan mat, skreyttur upp á slóvenskan máta með myndum af sígaunum og allskonar sveitadóti og það besta var þegar gamall maður tók sig til og fór að spila á arabískt hljóðfæri sem stóð í einu horninu (einhverskonar píanó en það er slegið á strengina með hömrum sem haldið er á).
Svo var það óperan. Söngvararnir voru flestir mjög góðir, búningarnir góðir, hlerarnir í gólfinu góðir, dansararnir góðir, skuggamyndirnar góðar, húsin sem ýmist var ýtt eða flugu upp af sviðinu góð, blásararnir í sviðsvængnum 
góðir... osfrv. semsagt, leikstjórinn eða einhver hefur algerlega misst sig í nýja húsinu og gert ALLT sem hægt var að gera þar. Maður hafði sjaldnast tíma til að horfa á söngvarana sem vorum bara fínir leikarar því það var bara allt of mikið að gerast.
Jæja. Svona var nú það, myndirnar eru semsagt frá mér og Ragga að leika okkur og síðarn frá Bratislava ferðinni góðu (:







Sunday, January 27, 2008

Hananú!

Jæja, þá er Titus búinn, hefði getað gengið mikið betur (bölvaðar aríurnar, sérstaklega seinni... hverjum datt í hug að hafa a í lokin á aríu fyrir mezzó... ok, Mozart, en samt!) en hefði líka getað verið milljónfallt verra. Ég held t.d. að ég hafi næstum alltaf verið með hljómsveitinni (:  
Annars er ég búin að prófa sundlaugina sem er hérna nálægt og búin að hneykslast á því hvað það er dýrt að fara í sund - 5,5 Evrur. Sundlaugin var líka svo full að það var ekkert vit í því að reyna að synda eitthvað af alvöru. Hins vegar var alveg einstaklega gaman að troða marvaða og fylgjast á meðan með fólkinu sem er að læra að stinga sér. Ógeðslega flott! Skrúfur og hringir og kollhnísar og ég veit ekki hvað og hvað. Glætan að ég myndi samt þora þessu, auk þess hef ég lítinn áhuga að vera alveg SVONA mikið mössuð eins og gellurnar sem voru að þessu. Samt mjög töff. Skemmtilega hátíðlegt skilti í búningsklefanum: "Bitte nur im reinem zustand die Swimmhalle betraeten" sem þýðir nokkuð beint: Vinsamlegast farið aðeins í sundlögina í hreinu ásigkomulagi.
Fólk hérna í Vín er almennt mjög hlýðið hvað varðar rautt og grænt ljós þegar kemur að því að labba yfir götur. Þess vegna var ég nett hissa um daginn þegar ég sá eldri mann "stelast" til að labba yfir götu á rauðu ljósu og hann skammaðist sín greinilega það mikið að honum fannst hann þurfa að útskýra fyrir mér hvers vegna hann hafði framið þennan hræðilega verknað. Mjög sætt (:
Jæja, læra meira....

Sunday, January 20, 2008

Tito



Jæja nú er æfingaferlið að renna sitt skeið og komið tími til að fara að huga að svansöng.
Ég setti inn fullt af myndum frá síðustu æfingu inn á sér bloggsíðu og allir sem vilja geta skoðað hana líka (http://clemenzatito.blogspot.com) en ég ætla að stinga einni hérna með líka og svo einni mynd úr síðasta skylminga tíma (: Annars allt gott að frétta. Fór í dýragarðinn í dag - keypti mér árspassa þegar Agnes var hérna og það er eins gott að nýta sér hann til að líta á litlu kvikyndin.

Saturday, January 12, 2008

Aftur úti

Mikið ægilega var yndislegt að vera heima um jólin innan um fuglinn og fólkið sem maður elskar og á "fortíð" með, maður þarf ekki einu sinni að gera neitt merkilegt með þeim, bara að VERA með þeim eða nálægt þeim. Jæja, en sem betur fer er búið að vera nóg að gera hérna úti þannig að það hefur verið lítill tími fyrir heimþrá. Talaði samt við pabba og Skrípið á Skype í gær sem var alveg sérstaklega yndælt því Skrípið vildi tjá sig líka og tala við mömmu sína (:
Annars bara lítið merkilegt til að skrifa um... á mánudaginn er próf í sviðstækni og ég hef mætt í færri en helminginn af tímunum út af æfingum, á miðvikudaginn syng ég allan hinn æðislega Hermit Songs flokk e. Barber á skólatónleikum sem verður mjög gaman... ef vel text til (;... og svo er Titus-sýningin sem ég syng á föstudaginn 25...og svo... er óperusögupróf og saga og ég förum ekki vel saman. En, svo byrjar vetrarfríið í skólanum! Þá kemur Raggi og ætlar að kenna mér allt sögulegt um Vín (sem ég á eflaust því miður ekki eftir að muna) og við ætlum að menningast alveg helling saman sem verður frábært og svo koma mamma og pabbi og svo förum við út á land og hittum þar Agnes og Einar og við hottintottumst öll saman eins og útálandiliðið sem við erum (: